SVONA VINNUM VIÐ

Hvernig virkar stjórnendaleit Góðra samskipta?

 

Stjórnendaleit (Executive Search) er aðferð við að finna sterka kandídata í stjórnunarstöður hjá fyrirtækjum og stofnunum. 

 

Störfin eru stundum auglýst (svo sem þegar það er álitið geta fjölgað hæfum kandídötum, eða ef það er stefna viðkomandi vinnuveitanda eða honum er skylt að gera það samkvæmt reglum) en jafnframt er mikil áhersla lögð á að ná til sterkra kandídata sem eru ekki að leita að starfi eða lesa atvinnuauglýsingar.

Einnig minnum við fólk á að skrá sig á póstlista Góðra samskipta. Við sendum fréttapóst u.þ.b. hálfsmánaðarlega á póstlistann þar sem við fjöllum stuttlega um þau störf sem við erum að vinna í hverju sinni og birtum ýmislegt annað gagnlegt efni.

 

Hvernig er ferlið hjá ykkur?
Við leitum
 víða fanga við að finna hæfasta einstaklinginn í starfið. Við byrjum á að greina hlutverkið út frá ýmsum þáttum. Því næst kortleggjum við hvar fólkið gæti hafa byggt upp viðeigandi þekkingu og hæfni. Við söfnum upplýsingum og spyrjumst fyrir á meðal fólks í sambærilegum geirum eða sem við höfum ástæðu til að ætla að þekki til hæfra einstaklinga á þessu sviði.

 

Við höfum síðan samband beint við fólk og fáum frekari upplýsingar um það sem það hefur verið að gera og könnum óformlega áhuga þess á að heyra um nýtt tækifæri.

 

Þá tekur við matsferli þar sem þau sem til greina koma fara í viðtöl, taka próf, vinna raunhæft verkefni. Að lokum er ítarlegra umsagna aflað um þau síðustu sem eftir standa áður en einu þeirra er boðið til viðræðna um að taka að sér starfið.

 

Við leggjum áherslu á að eiga í tíðum samskiptum við kandídatana á meðan á ferlinu stendur til að væntingar og hugmyndir beggja aðila séu í takt. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar komið er að ákvörðun viðkomandi eintaklings um að taka að sér nýtt hlutverk.


Getur maður óskað eftir fundi til að kynna sig fyrir ykkur?
Það er öllum velkomið að hafa samband við okkur og við viljum eiga samskipti við sem flesta og vita af öflugu fólki. Við tökum hins vegar hvorki almenn viðtöl né tökum við almennum umsóknum. Besta leiðin til að nálgast okkur er á sama hátt og við fólk almennt, með því að vera sýnileg og dugleg að mynda tengsl. Þá á hátt sem báðir aðilar hafa gagn af.

 

Við viljum semsagt gjarnan vita af góðu fólki en tökum einungis viðtöl við umsækjendur í tengslum við þau störf sem við erum að leita í hverju sinni. Þá er mikilvægt að fólk viti að við höldum ekki sérstaklega utan umsóknir eða ferilskrár sem við fáum sendar, heldur rennum eingöngu yfir þær gagnvart því hvort viðkomandi passi í hlutverk sem við erum að ráða í þá stundina. Við viljum ekki skapa væntingar um að það fari eitthvað meira ferli af stað þegar fólk sendir okkur ferilskrár.

Hvernig vitið þið þá af manni?

Við leitum fyrst og fremst í opinberum gögnum og við hvetjum fólk þess vegna eindregið til að vera með vel uppfærðan Linkedin prófíl. Við styðjumst mikið við upplýsingar þaðan. Flestir sem vilja vera sýnilegir á vinnumarkaði eru nú þegar skráðir þar og þeir geta einnig merkt sérstaklega að þeir séu opnir fyrir nýjum áskorunum. Það eru aðeins aðilar eins og við, sem höfum ráðningarskrifstofuaðgang hjá Linkedin sem sjá þá merkingu.

 

Linkedin er að okkar mati besti gagnagrunnurinn yfir fólk á vinnumarkaði í dag og við greiðum Linkedin fyrir sérstakan ráðningaraðgang sem kallast Recruiter Professional Servicestil að geta leitað á einfaldan hátt að upplýsingum um alla þar inni.

 

Hvernig vekur maður athygli á sér?

Að því sögðu þá má fólk gjarnan hnippa í okkur, stafrænt eða þar sem það rekst á okkur, og segja okkur hvað það er að hugsa eða í hvers konar hlutverk það geti passað vel í. Það er sakar allavega ekki.

 

Það er hins vegar aðalatriðið að fólk standi sig vel í sínu og gæti þess að vera að vaxa í getu og hæfni með því að taka reglulega að sér ný verkefni og ábyrgð. Þá er mikilvægt að huga vel að eigin sýnileika og tengslaneti, helst áður en þú þarft á því að halda.

 

Ef svo er þá er ekki ólíklegt að okkur verði bent á þig næst þegar við förum á stúfana til að spyrjast fyrir um sterka kandídata með tiltekinn bakgrunn eða reynslu.

 

Við vitum að margir eru óvissir um hvernig best sé að þróa sinn feril og komast í tæri við ný tækifæri á vinnumarkaði. Af þeim sökum bjóðum við upp á ýmsa möguleika s.s. stjórnendaþjálfun, ráðgjöf og ýmis námskeið í starfsframastjórnun gegn gjaldi. Hér má sjá hvað við bjóðum upp á á þessu sviði.

 

Þá höldum við reglulega ókeypis fyrirlestra í samstarfi við ýmis félagasamtök þar sem fjallað er um þessa hluti.